Ágæti hluthafi,

Þann 25. ágúst s.l. samþykkti stjórn Eyris Invest uppgjör félagsins fyrir fyrri árshelming 2014. Í samræmi við stefnu félagsins um upplýsingagjöf til hluthafa, sendum við þetta bréf þar sem farið er yfir af­komuna, helstu viðburði á fyrri hluta ársins og framtíðarhorfur. Einnig viljum við gjarnan funda með þeim hluthöfum sem þess óska um stöðu og framtíðarhorfur eins og fram kemur í lok bréfsins.

Uppgjör Eyris á fyrri hluta ársins einkennist af gengisþróun hluta í Marel á markaði. Gengi hluta í Marel var í upphafi árs kr. 133,0 á hlut en kr. 104,5 á hlut þann 30. júní s.l. Þessi breyting leiðir til €34,5 milljóna lækkunar á bókfærðu virði á eignarhlut Eyris í Marel á tímabilinu. Gengisþróunina má rekja til kostnaðar við aðgerðaráætlun sem Marel hefur hrint í framkvæmd til að auka arðsemi félagsins. Áætlunin hefur nú þegar skilað miklum árangri og mun leiða til áframhaldandi bættrar afkomu á komandi árum og virðisaukningar á hlutum í félaginu. Byggt á boðuðum breytingum um aðgerðir í rekstri og væntan rekstrarbata er veruleg virðisaukning framundan. Útlit á mörkuðum Marel er jákvætt og pantanabók félagsins hefur hækkað um 18% frá upphafi árs.

Rekstur annarra eigna Eyris hefur gengið vel á tímabilinu. Stork birti nýverið 6 mánaða uppgjör sem sýndi verulegan rekstrarbata, sem skilaði sér í hækkun á gengi skuldabréfa félagsins á markaði. Rekstur Fokker Technologies er í samræmi við áætlanir.

Þrátt fyrir jákvæða þróun hjá helstu eignum Eyris nemur bókhaldslegt tap af starfsemi félagsins á fyrri árshelmingi €42,9 milljónum sem skýrist aðallega af gengisþróun á hlutum í Marel. Heildareignir þann 30.6.2014 nema €301,2 milljónum og eiginfjárhlutfallið er 42%. Engar breytingar voru á bókfærðu verði eignarhlutar Eyris í London Acquisition S.àr.l. sem á og rekur Fokker Technologies og Stork.

Marel

Marel er alþjóðlegur leiðtogi í lausnum, búnaði og þjónustu fyrir vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi.

Í nóvember 2013 tilkynnti stjórn Marel að Árni Oddur Þórðarson hefði tekið við starfi forstjóra félagsins. Í máli nýs forstjóra kom fram að uppgjör Marel síðustu fjórðunga fram að því endurspegluðu ekki getu félagsins til verðmætasköpunar. Í samræmi við það kynnti Marel aðgerðaráætlun sína samhliða niðurstöðu 1. ársfjórðungs 2014.

Markmið aðgerðaráætlunarinnar er að auka skilvirkni, bæta þjónustu við viðskiptavini og lækka árlegan kostnað í rekstri félagsins um €20 – 25 milljónir. Félagið réð til sín alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið AlixPartners til að aðstoða við skipulagningu og framkvæmd áætlunarinnar.

Nú þegar hefur félagið náð að lækka kostnað um u.þ.b. €8 milljónir á ársgrundvelli, m.a. með fækkun starfsfólks, sameiningu framleiðslustöðva og einföldunar vöruframboðs. Um er að ræða varanlegan sparnað sem leiðir til þess að kostnaður og afkoma batnar sem þessu nemur til frambúðar. Félagið hefur þegar kynnt frekari aðgerðir um sameiningu eininga. Einnig verður núverandi net framleiðslustöðva einfaldað í stærri framleiðslusetur þar sem fleiri iðngreinum verður sinnt á sama stað. Þannig verður Marel betur í stakk búið til að takast á við vöxt og sveiflur í eftirspurn. Þessar breytingar leiða til kostnaðar í upphafi en verulegs rekstrarbata til framtíðar.

Staða á þeim mörkuðum sem Marel starfar fer batnandi og aðstæður til vaxtar eru góðar. Í uppgjöri félagsins fyrir 2. ársfjórðung 2014 kom fram að mótteknar pantanir á fjórðungnum námu €188 milljónum samanborið við €161 milljón á 1. ársfjórðungi og €159 milljónum á 2. ársfjórðungi árið á undan. Pantanabók Marel í lok. 2. ársfjórðungs nam €156 milljónum, sem er 13% hækkun.

Ljóst er að þörfin fyrir bætta nýtingu hráefnis, rekjanleika og aukið næringargildi og umhverfisvæna fram­leiðslu (t.d. minni vatnsnotkun) mun knýja vöxt í þessari iðngrein. Einnig er ljóst að lausnir Marel á þessu sviði eru í farabroddi. Jafnfram er ljóst að staða Marel á nýmörkuðum, þar sem vöxturinn verður mestur, er sterk.

Fjárfesting Eyris í Marel er langtímafjárfesting. Vöxtur í matvælaframleiðslu, sérstaklega á ný­mörkuðum, er fyrirsjáanlegur. Samkvæmt mati OECD mun hlutfall virkra neytenda vaxa úr 30% af íbúafjölda jarðar 2014 í 60% árið 2030. Þessi undirliggjandi þróun mun leiða til þess að þeir markaðir sem Marel starfar á munu vaxa umtalsvert yfir sama tímabil.

Eyrir hefur fulla trú á markmiðum Marel um aukna arðsemi. Sem hluthafi tekur Eyrir virkan þátt í stefnumótun félagsins. Eyrir hefur miklar væntingar til arðsemi hluta í félaginu og mun leggja sitt af mörkum til að félagið standist þær væntingar. Eyrir Invest hf. á 29,3% hlut í Marel.

Stork

Stork er leiðandi þjónustuaðili í efna-, olíuhreinsunar-, olíu- og gasiðnaði. Starfsmenn félagsins í Evrópu, Ameríku, Mið-Austurlöndum, Asíu og Ástralíu eru um 13.500.

Rekstur Stork batnaði mikið síðari hluta árs 2013 og það sem af er ári 2014. Aðgerðaráætlun félagsins sem unnin var í samstarfi við AlixPartners, sem nú vinna með Marel, hefur gengið umfram væntingar mánuð fyrir mánuð frá því hún kom til framkvæmdar. Gripið var til aðgerðaráætlunarinnar eftir að uppgjör félagsins árið 2012 og fyrri hluta 2013 ullu vonbrigðum. Aðgerðaráætlunin nær til loka árs 2016.

Stork kynnti nýlega niðurstöðu fyrir fyrri árshelming 2014 en skuldabréf félagsins eru skráð á markað í Evrópu. Viðbrögð fjárfesta voru mjög jákvæð og hefur gengi skuldabréfa félagsins á markaði hækkað umtalsvert það sem af er ári.

Eyrir Invest hf. á um 17% hlut í London Acquisition sem á og rekur Stork. Þórður Magnússon, stjórnar­formaður Eyris, situr fyrir hönd Eyris í stjórn Stork.

Fokker Technologies

Fokker Technologies hannar, þróar og framleiðir íhluti í flugvélar fyrir stærstu flug­véla­framleiðendur heims ásamt því að veita þjónustu til rekstraraðila flugflota. Starfsmenn félagsins um allan heim eru rúmlega 4.600.

Afkoma Fokker árið 2013 var í samræmi við væntingar. Tekjur námu €762 milljónum og þar af voru tekjur „Design & Build“ eða D&B €561 milljón. D&B eru þær deildir Fokker sem hanna, þróa og framleiða íhluti í flugvélar. D&B ásamt Fokker Services mynda Fokker Technologies.

Afkoma Fokker D&B fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir („Operational EBITDA“) nam €70 milljónum fyrir árið eða 12,5% af tekjum. Rekstur Fokker Services var undir væntingum á sama tímabili en samdráttur í starfandi flota af Fokker flugvélum var þar meginskýring.

Horfur í rekstri Fokker D&B eru góðar. Fjöldi verkefna og langtímasamningar félagsins við fram­leiðendur flugvéla eins og Airbus A350 farþegaþotunnar og Dassault F5-X einkaþotunnar munu tryggja félaginu sterkan vöxt næstu árin.

Eyrir Invest hf. á um 17% hlut í London Acquisition sem á og rekur Fokker Technologies. Árni Oddur Þórðarson, situr fyrir hönd Eyris í stjórn Fokker Technologies.

Sprotar

Eyrir Invest hefur verið áhrifamikill fjárfestir í íslenskum sprotafyrirtækjum um nokkra tíð. Má þar nefna fjárfestingu félagsins í Calidris, sem síðar var selt til Sabre Airline Solutions, Remake Electric og Saga Medica. Til frekari aðgreiningar á milli lykilfjárfestinga Eyris (Marel, Stork og Fokker Technologies) stofnaði félagið samlagshlutafélagið Eyrir Sprotar.

Eyrir hefur orðið var við aukinn áhuga fagfjárfesta á þátttöku í Eyri Sprotum og hefur rætt við nokkra stóra innlenda fagfjárfesta um mögulegt samstarf á þeim vettvangi. Á sama tíma hafa Eyrir Sprotar skoðað nokkur ný og spennandi verkefni með mögulega fjárfestingu í huga.

Næstu skref

Hjá okkur í Eyri eru stór verkefni framundan. Eitt af þeim verkefnum er að flýta sölu á Fokker Technologies og Stork en bæði félög eru vel staðsett til að taka þátt í samþættingu í sínum iðngreinum. Markmið Eyris er að hámarka virði til hluthafa við sölu þessara eigna. Eyrir mun veita Marel stuðning og aðhald til að klára það ferli sem félagið er nú í enda er það trú Eyris að það muni skila mikilli virðisaukningu til hluthafa félagsins.

Við höfum mikinn áhuga á að funda með hluthöfum um rekstrarstöðu einstakra félaga, framtíð og horfur. Við hvetjum þig til að hafa samband við Ólöfu Þorleifsdóttur í tölvupósti á olof@eyrir.is eða í síma 525 0200 eða undirritaðan í tölvupósti thordur@eyrir.is eða síma 893 2559 til að festa slíkan fund.

Að lokum viljum við benda á að uppgjör félagsins fyrir fyrri helming ársins 2014 er að finna á heimasíðu okkar, www.eyrir.is.

Með kveðju, f.h. stjórnar og framkvæmdastjóra Eyris Invest hf.

__________________________________

Þórður Magnússon

Formaður stjórnar

 

 Financial Statements 30.06.2014

Recent Posts